Tók áður enga ábyrgð á sjálfri sér og hjálpar nú öðrum í sömu stöðu

„Það er í byrjun árs 2019 sem ég lendi alveg á vegg og fer út frá því að hugsa betur um sjálfa mig, setja mig ofar á forgangslistann,“ segir Halldóra Hanna Halldórsdóttir. Undanfarinn var sá að Halldóra eignaðist langveikt og fjölfatlað barn í apríl árið 2013. Hún ákvað eftir nokkur erfið ár að líta inn á við og gera breytingar.

Halldóra Halldórsdóttir segir að of margir foreldrar langveikra barna gleymi að setja eigin andlega og líkamlega heilsu í forgang.

„Ég var búin að vera í fimm til sex ár í mikilli vanlíðan og fórnarlambsgír, eins og ég vil kalla það,“ segir Halldóra í nýjasta þættinum af Spjallið með Góðvild. Þar segist hún í byrjun hafa hugsað af hverju hún hefði eignast þetta barn og hvað hún hefði gert til að „eiga þetta skilið.“

Lífið breyttist mikið eftir að hún eignaðist langveikt barn en í dag er Halldóra ánægð með margar breytingarnar sem hún hefur gert núna á eigin lífi og hugarfari. Þessa reynslu ætlar hún að nota til að hjálpa öðrum.

„Ég vil meina að hann hafi komið í líf mitt til að ranka við mér og koma mér í þakklætið fyrir það sem maður hefur.“

Halldóra segir að margir í sömu stöðu og hún var í, geri sér ekki endilega grein fyrir því hvað þeir eru fastir í sínum neikvæðu hugsunum. Sjálf var hún í mikilli andlegri og líkamlegri vanlíðan.

„Ég var ekki að taka neina ábyrgð á sjálfri mér. Þegar ég fer svo í sjálfsvinnuna þá er það þessi breyting að ég tek fulla ábyrgð á sjálfri mér og geri mér grein fyrir því að það er enginn að fara að hjálpa mér að verða hamingjusöm, komast eitthvað áfram í lífinu eða líða vel, annar en ég sjálf.“

Markþjálfun getur skipt sköpun fyrir fólk sem þarf stuðning til að stíga sín fyrstu skref í átt að betra lífi. Halldóru langar nú að hjálpa öðrum að komast á betri stað í lífinu og þá sérstaklega öðrum foreldrum langveikra barna sem á hverjum degi glíma við gífurlegt álag og áskoranir.

„Þjáningin þarf oft að vera búin að vera það mikil á þessum stað að við loksins rönkum við okkur og förum að gera eitthvað í okkar málum.“

Í þessum þætti ræðir Halldóra hvernig hún er búin að breyta erfiðri og neikvæðri reynslu yfir í jákvæða breytingu með sjálfskoðun sem umturnaði lífi hennar.

„Það er kannski skrítið segja þetta, að maður sé þakklátur fyrir að fá fjölfatlað barn sem lifir við miklar þjáningar í lífinu. En ég er í alvöru þakklát fyrir það því að ég trúi því að hann hafi komið hingað til að kenna mér.“

Hægt er að horfa á viðtalið á www.visir.is 

Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi á þriðjudögum. Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar sem er í stjórn Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu. 

Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna www.godvild.is eða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *