„Það er gott að leita til fólks sem hefur gengið í gegnum eitthvað svipað,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lögfræðingur og dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna var gestur í þættinum Spjallið með Góðvild og ræddi þar hvað hún hefur lært af því að eiga systur með fötlun, mikilvægi NPA þjónustu og margt fleira. Sjálf leitaði hún í jafningjafræðslu þegar hún var yngri.
„Þar þorði maður meira að spyrja spurninga og segja hvað manni þótti erfitt, sem að maður kannski vildi ekki láta á bera þegar maður var heima við,“ segir Áslaug Arna. Í dag reynir hún að miðla sinni eigin reynslu af því að eiga systur með fötlun og einnig móðurmissinum.
„Ef það gagnast einhverjum einum þá er það algjörlega þess virði.“
Viðtalið má sjá HÉRNA en einnig er hægt að hlusta á flestum hlaðvarpsstöðvum
HRISTIR UPP Í KERFINU
„Ég er mikil félagsvera og finnst leiðinlegt að vera ein. Ég nýt þess að vera í kringum fólk og stundum full mikið, stundum gleymi ég að það er gott að vera einn og slaka á og annað. Ég er mjög góð í að sofa, ég gæti sofnað eiginlega hvað sem er hvenær sem er. Það er mikill kostur, sérstaklega þegar það er mikið að gera og spennustigið er hátt,“ sagði Áslaug Arna meðal annars þegar hún var beðin um að lýsa sjálfri sér.
Hún fór ung á þing og í pólitík og segir að margir noti það gegn henni og segja að hún sé reynslulaus.
„Ég held að það séu kostir og gallar. Það er mikilvægt að hafa breiðan hóp fólks sem hefur bæði víðtæka og langa reynslu sem auðvitað nýtist í ákveðnum mæli en það að koma svona ungur og ferskur inn hefur líka alls konar kosti með sér. Maður hristir frekar upp kerfin, er óþololinmóðari fyrir breytingum, sér kannski hlutina á annan hátt því þeir þurfa ekki að vera eins og þeir hafa alltaf verið.“

LÆRÐI UMBURÐARLYNDI OG VARÐ SJÁLFSTÆÐARI
Áslaug Arna segist að auki ekki telja sjálfa sig reynslulausa eftir að sitja á þingi frá 2016, vera formaður í tveimur stærstu þingsins og svo framvegis. Hún segir að það hafi haft töluverð áhrif á hana að missa móður sína ung og að eiga fatlaða systur.
„Þetta mótar mann mjög mikið og það þarf ekkert endilega að vera neikvætt. Ég hef alltaf svolítið horft á það að lífið er ekki sanngjarnt en það er geggjað, það er frábært og skemmtilegt og getur líka verið erfitt og alls konar. Að eiga systir sem er með fötlun, þú þroskast öðruvísi. Þú lærir meira ungur, maður verður umburðarlyndari og líka víðsýnni og sjálfstæðari. Það eru mjög mikið af kostum sem að koma með því að fá að umgangast fólk sem er fjölbreytt eða er að glíma við einhverja erfiðleika og áskoranir.“
Áslaug Arna segist sjá að heimurinn sé ekki jafn vel búinn til fyrir systur sína og fyrir sig sjálfa.
„Það hefur gert mig sterkari og líka miklu reynslumeiri.“
Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi Sjónvarp en einnig er hægt að hlusta á flestum hlaðvarpsstöðvum.
Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar framkvæmdastjóra Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu.
Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna godvild.iseða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.