Hagsmunahópur Góðvildar skorar á Félags- og barnamálaráðherra

Áskorun á Félags- og barnamálaráðherra vegna launagreiðslna til foreldra barna sem sæta þurfa varnarsóttkví vegna COVID-19 veirunnar.

Vegna þessa fordæmalausa ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu vegna COVID-19 veirunnar samþykkti Alþingi lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir þann 20. mars síðastlinn. Er markmið laganna meðal annars að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Taka lögin meðal annars til tilvika þar sem launamaður þarf að vera frá vinnu þar sem barn hans yngra en 13 ára eða barn yngri en 18 ára, sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, þarf að sæta sóttkví. Lögin taka hins vegar ekki til foreldra barna sem tilheyra sérstökum áhættuhópum vegna COVID-19 veirunnar sökum undirliggjandi sjúkdóma. Er þeim þó ráðlagt að halda börnunum heima næstu vikurnar samkvæmt fyrirmælum frá bæði Barnaspítala Hringins og Embætti landlæknis.

Ætla má að innan við hundrað foreldrar séu í þessum sporum. Margir þeirra búa við langvarandi tekjutap þar sem þeir hafa þurft að minnka við sig starfshlutfall til að geta sinnt vinnu samhliða umönnun barna sinna. Til viðbótar því ástandi sem nú er komið upp hafa þeir til langs tíma þurft að reiða sig á skilning vinnuveitenda sökum tíðra fjarvista frá vinnu vegna bæði veikinda barnanna og heimsókna til lækna og annara sérfræðinga. Upplifa sumir sig því í erfiðri stöðu. Ofan á þetta bætist að liðveislur og annar stuðningur er ekki til staðar þessa daganna. Ekki er hlaupið að því að finna aðra í þeirra stað enda þurfa sum barnanna það sérstaka umönnun að það er ekki á allra færi að annast þau. Í mörgum tilvikum er umönnun barnanna einnig það þung að útilokað er að geta sinnt vinnu að heiman samhliða umönnun þeirra.

Margir foreldrar hafa því ekkert val um annað en vera heima með börnunum til að tryggja öryggi þeirra. Þá er heilsufari flestra barnanna þannig háttað að ef þau veikjast af COVID-19 veirunni þá er afar líklegt að þau þurfi spítalainnlögn og mögulega gjörgæslu með tilheyrandi álagi og aukakostnaði fyrir heilbrigðiskerfið, að ótöldum ótímabærum dauðsföllum. Það er því engin tilviljun að bæði Barnaspítali Hringsins og Embætti landlæknis flokka þessi börn í sérstakan áhættuhóp og ráðleggja að þeim sé haldið frá skóla og annarri dagvist á meðan þetta ástand varir.

Þar sem afar mikilvægt er fyrir þessi börn að forðast smit af völdum COVID-19 veirunnar er óskiljanlegt að stjórnvöld setji foreldra í þá stöðu að þurfa að óttast um afkomu sína og taka á sig tekjutap til að geta fylgt ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda varðandi þennan hóp. Þetta er ekki boðlegt í samfélagi sem leggur áherslu velferð barna.

Fyrir hönd þessa foreldra óskum við því eftir að hæstvirtur Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, taki þessi mál til endurskoðunar og tryggi foreldrum barna í þessari stöðu launagreiðslur á meðan þetta ástand varir enda er líf og heilsa þessa viðkvæma hóps bókstaflega í húfi.

Fyrir hönd Hagsmunahóps Góðvildar,

Halldóra Inga Ingileifsdóttir

Sigurður Hólmar Jóhannesson

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *