Fréttabréf Góðvildar

Góðvild, styrktarsjóður, var stofnað í desember 2016 og er markmið styrktarsjóðsins að hjálpa fjölskyldum langveikra og fatlaðra barna á Íslandi með margvíslegum hætti til að auka lífsgæði þessara fjölskyldna.

Góðvild er ekki með fasta starfsmenn eða skrifstofu, heldur er öll starfsemin unnin í sjálfboðavinnu. Þetta ákváðum við stjórnin að gera svo að ALLUR ykkar stuðningur fari beint í verkefnin en ekki í kostnað.

 Árið 2018 gerði Góðvild samning við VT Ráðgjöf um að leita til almennings í von um stuðning. Stefnt var að safna lágum mánaðarlegum framlögumtil þess að komast á þann stað að Góðvild gæti stutt við Leiðarljós, stuðningsmiðstöð fyrir veikustu börn landsins auk þess að vinna í öðrum verkefnum samhliða.

Yfir 3400 manns eru að styðja Góðvild í hverjum mánuði og fyrir það erum við innilega þakklát.

 Við fylgjumst vel með þeim verkefnum sem við höfum styrkt og sjáum að hjólastólarnir sem við gáfum Barnaspítala Hringsins í desember 2018 eru vel nýttir.

Mánaðarlegur stuðningur Góðvildar við stuðningsmiðstöðina Leiðarljós gengur vel en Leiðarljós flutti nýverið í Kringluturninn. Nánar má lesa um starfsemi Leiðarjóss á www.leidarljos.is.

 Meðal þess sem Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir, starfsmaður Leiðarljóss hefur verið að taka að sér á vegum Leiðarljóss, eru verkefni sem hjúkrunarfræðingar Heimahjúkrunar hafa talið brýn. Um er að ræða verkefni þar sem þjónusta við fjölskyldur langveikra barna er lítil og í slæmum málum, ásamt því að aðstoða foreldra við að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála niðurstöður þeirra mála frá Tryggingastofnun, o.fl.

 Góðvild styður við málþing um genið ATP1A3 en þetta er í fyrsta sinn sem málþing um genið sem stjórnar orkunni til heilans, er haldið á Íslandi. Það eru AHC samtökin ásamt vísindamönnum frá Danmörku, Hollandi og Þýskalandi sem skipuleggja þetta spennandi málþing en það er haldið 3. – 4. október. Fleiri upplýsingar um málþingið má lesa hér: http://conferences.au.dk/atp1a3symposium2019/.

 Þá hefur Góðvild stutt Klettaskóla með kaupum á samskiptatölvum sem skólinn þarf nauðsynlega á að halda. Tölvurnar heita Tobii Dynavox og virka þannig að barnið getur ýtt á mynd og þá talar tölvan fyrir barnið. Þetta er tjáskiptaform sem virkar vel fyrir mjög mörg börn í skólanum en skólinn á aðeins eina svona tölvu fyrir. Stefnt er að því að afhenda tölvurnar í byrjun næsta skólaárs.

 Eins og sést eru mörg verkefni í deiglunni en við erum líka alltaf opin fyrir góðum hugmyndum og því endilega sendið okkur ábendingar gegnum heimasíðuna okkar, www.godvild.is. Einnig er hægt að finna okkur á Facebook;

https://www.facebook.com/godvild/

 Við viljum þakka ykkur stuðningsaðilum fyrir að vera LJÓSIÐ Í MYRKINU fyrir fjölskyldur langveikra barna á Íslandi og vonandi göngum við saman í átt að betri tíð fyrir þessar fjölskyldur.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *